21.6.2011

Fundum Alþingis (139. löggjafarþings) frestað til 2. september

Fundum Alþingis (139. löggjafarþings) var frestað frá 15. júní 2011 til 2. september 2011. 
Alþingi, 139. löggjafarþing, kom saman til fundar 1. október 2010 og var að störfum til 18. desember 2010. Þing kom saman að nýju 17. janúar og stóð til 15. júní 2011 og var þá frestað til 2. september 2011.


Þingfundir yfirstandandi þings eru orðnir 155 og hafa staðið alls tæpar 667 klukkustundir. Lengsta umræðan var um fjárlög 2011 og stóð hún í tæpar 34 klukkustundir. Lengsti þingfundur stóð í 17 klukkustundir og 13 mínútur og 103 þingfundadagar hafa verið hingað til.
Af 241 frumvarpi eru alls 104 orðin að lögum, einu hefur verið vísað til ríkisstjórnarinnar og eitt kallað aftur, 135 frumvörp eru ekki útrædd. Af 161 þingsályktunartillögu voru alls 44 tillögur samþykktar sem ályktanir Alþingis, ein var felld, 115 eru ekki útræddar og ein var kölluð aftur.

Fyrirspurnir á þingskjölum eru 458. Munnlegar fyrirspurnir eru 111 og var þeim öllum svarað nema einni, ein var kölluð aftur, skriflegar fyrirspurnir eru 347 og hafa 312 skrifleg svör borist.

Þingmál sem lögð hafa verið fram frá okt. 2010 til 15. júní 2011 eru alls 894. Tala prentaðra þingskjala er 1813.

Umræður um störf þingsins voru 37. Óundirbúnir fyrirspurnatímar voru 50 og óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra alls 251.

Munnlegar skýrslur ráðherra voru 8 og umræður utan dagskrár voru 53.